Fótbolti

Ali aftur hetjan og Katar mætir Jór­daníu í úr­slita­leik

Sindri Sverrisson skrifar
Katarar spila til úrslita á Asíumótinu, á heimavelli, eftir að hafa fagnað sigri gegn Íran í dag.
Katarar spila til úrslita á Asíumótinu, á heimavelli, eftir að hafa fagnað sigri gegn Íran í dag. Getty/Masashi Hara

Sóknarmaðurinn Almoez Ali, hetja Katara frá því 2019, reyndist aftur hetja þeirra í dag þegar Katar vann Íran í undanúrslitum Asíumótsins í fótbolta, 3-2.

Það verða því Katar og Jórdanía sem spila til úrslita á mótinu en Jórdanía vann afar óvæntan sigur gegn Suður-Kóreu í hinum undanúrslitaleiknum.

Íran glutraði niður tækifærinu til að spila til úrslita í keppninni í fyrsta sinn síðan árið 1976, en þá varð liðið Asíumeistari þriðja skiptið í röð.

Íranar fengu reyndar draumabyrjun í dag því Sardar Azmoun kom þeim yfir strax á fjórðu mínútu. Katar komst hins vegar yfir fyrir leikhlé, með mörkum frá Jassem Gaber og Akram Afif.

Alireza Jahanbakhsh jafnaði metin fyrir Íran snemma í seinni hálfleik en eins og fyrr segir var það Ali, markakóngur mótsins fyrir fjórum árum, sem skoraði sigurmarkið á 82. mínútu. Íranar léku manni færri síðustu mínúturnar eftir að Shoja Khalilzadeh fékk rautt spjald í uppbótartíma, eftir myndbandsskoðun, og náðu ekki að finna jöfnunarmark þrátt fyrir að hafa komist ansi nálgt því.

Katar, sem er á heimavelli í ár, á því enn möguleika á að verja titilinn frá því fyrir fjórum árum, þegar liðið vann Asíumótið í fyrsta sinn. Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×