Fótbolti

Tottenham féll úr leik gegn B-deildarliði og Southampton gegn D-deildarliði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Iliman Ndiaye skaut Sheffield United í átta liða úrslit FA-bikarsins.
Iliman Ndiaye skaut Sheffield United í átta liða úrslit FA-bikarsins. Catherine Ivill/Getty Images

Á hverju ári býður enska bikarkeppnin, FA-bikarinn, upp á óvænt úrslit og í kvöld fengu áhorfendur að sjá tvö úrvalsdeildarlið falla úr leik gegn liðum í neðri deildum. Tottenham mátti þola 1-0 tap gegn B-deildarliði Sheffield United og D-deildarlið Grimsby Town gerði sér lítið fyrir og sló Southampton úr leik.

Tottenhamliðið virtist andlaust er liðið heimsótti Sheffield United og skapaði sér lítið af færum. Það kom í bakið á þeim því varamaðurinn Iliman Ndiaye skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu, aðeins sex mínútum eftir að hafa komið inn af varamannabekknum.

Rúmum hálftíma áður urðu svo enn ótrúlegri úrslit þegar D-deildarlið Grimsby Town sló úrvalsdeildarlið Southampton úr leik. Gavan Holohan skoarði bæði mörk Grimsby úr vítaspyrnum, en Duje Caleta-Car klóraði í bakkann fyrir heimamenn þegar um 25 mínútur voru til leiksloka. Niðurstaðan því 2-1 sigur Grimsby sem verður í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin í kvöld.

Að lokum unnu Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley góðan 1-0 sigur gegn C-deildarliði Fleetwood Town og eru því einnig á leið í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×