Innlent

Knatt­spyrnu­maður sleginn með krepptum hnefa í höfuðið af mót­herja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan stöðvaði einn ökumann sem mældist á 139 km/klst.
Lögreglan stöðvaði einn ökumann sem mældist á 139 km/klst. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í gærkvöldi eftir að tilkynning barst um líkamsárás á knattspyrnuvelli. Þar hafði leikmaður á varamannabekk verið sleginn með krepptum hnefa í höfuðið af mótherja, þegar fyrrnefndi var við það að fagna marki liðsfélaga síns.

Engar frekari upplýsingar um málið er að finna í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Verkefnin voru nokkuð fjölbreytt en lögregla handtók meðal annars tvo einstaklinga sem voru grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Voru þeir með rafvopn í fórum sínum, auk fíkniefnanna.

Þá var einstaklingur handtekinn eftir að hafa brotið rúðu í Hlíðahverfi en þetta var í þriðja sinn sem lögregla hafði afskipti af manninum sama daginn, við sömu stofnunina. Var hann í annarlegu ástandi.

Lögregla var einnig kölluð til þegar farþegi olli tjóni á leigubifreið og þá voru lögregla og sjúkraflutningamenn kallaðir til þegar tveir einstaklingar á rafmagnshlaupahjólum skullu saman þegar þeir mættust á gangstétt. Meiðsl voru minniháttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×