Innlent

Engin við­horfs­breyting orðið til Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Lyklaskipti voru höfð í ráðuneytinu 14. mars sl.
Lyklaskipti voru höfð í ráðuneytinu 14. mars sl. Fréttablaðið/Stefán
Engin viðhorfsbreyting hefur orðið í ráðuneytinu gagnvart Mannréttindadómstól Evrópu að sögn Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur dómsmálaráðherra. Í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn vísaði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, til dómstólsins sem erlendrar nefndar sem hefði ekkert umboð frá sjálfstæðum Íslendingum. Vísaði Sigríður til dómsins í Landsréttarmálinu sem atlögu pólitískt kjörinna dómara í Strassborg að íslensku dómskerfi.

„Það er ekki um neina viðhorfsbreytingu að ræða,“ segir Þórdís í svari við fyrirspurn blaðsins um hvort viðhorf ráðuneytisins til dómstólsins hafi breyst eftir dóminn og hvort fyrrgreind viðhorf Sigríðar endurspegli viðhorf ráðuneytisins.

Þórdís segir málið flókið og með marga vinkla og því skiljanlega mismunandi skoðanir á því. Hún segist hlusta á öll sjónarmið enda felist oft mesta ábyrgðin í að gera stöðuna ekki verri með illfærum inngripum.

„Ég er sem fyrr ekki þeirrar skoðunar að Ísland eigi að fella niður aðild sína að Mannréttindasáttmálanum og við höfum skuldbundið okkur að þjóðarétti til að fullnusta þá dóma sem upp eru kveðnir um Ísland,“ bætir Þórdís við og segir fullnustu þeirra falla ýmist í skaut dómstóla eða stjórnvalda.

„Það er þó alveg skýrt að við höfum ekki framselt dómsvald til Evrópu,“ segir Þórdís og telur eðlilegt að stjórnvöld hafi óskað endurskoðunar á fordæmalausri niðurstöðu sem stangist á við dóm Hæstaréttar og fari inn á svið íslenskra dómstóla við túlkun á landslögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×