Innlent

Efast um að íslensk ungmenni séu veikari á geði en gerist og gengur

Jakob Bjarnar skrifar
Páll segir reglurnar um örorkumat hljóti að hafa eitthvað með það að gera að tvöfalt hærra hlutfall ungs fólks á Íslandi greinist með geðröskun en á hinum Norðurlöndunum.
Páll segir reglurnar um örorkumat hljóti að hafa eitthvað með það að gera að tvöfalt hærra hlutfall ungs fólks á Íslandi greinist með geðröskun en á hinum Norðurlöndunum. fréttablaðið/ernir
Páll Magnússon þingmaður vakti athygli á því á Alþingi í morgun, „þeirri skuggalegu staðreynd,“ eins og hann segir, að 30 prósent öryrkja á Íslandi er ungt fólk, undir fertugu. Og, það sem meira er, tvöfalt hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum.

Þegar ungir karlmenn, 20 til 30 ára, hópast inn á örorkubætur vegna geðraskana þarf að staldra við.

Páll segist, í samtali við Vísi, ekki vita hvað veldur?

„Reglurnar um örorkumat hljóta þó að hafa eitthvað með þetta að gera. Varla eru íslensk ungmenni raunverulega svona miklu veikari á geði en „frændur“ þeirra á hinum Norðurlöndunum?“ spyr Páll en ætlast ekki til svars við spurningunni.

En, hvað er til ráða, að mati þingmannsins?

„Það þarf að nálgast málið frá báðum endum. Í fyrsta lagi þarf að greina raunverulegar ástæður fyrir þessu, meðal annars með því að bera regluverkið okkar saman við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Í öðru lagi þarf að leita allra leiða til að hjálpa fólki út úr þessu ástandi, meðal annars með þeim leiðum sem samtök á borð við Virk og Hugarafl bjóða upp á. Það gengur ekki að stór hópur ungs fólks læsist inni í langvarandi, jafnvel ævilangri, örorku þegar til eru leiðir til að koma í veg fyrir það. Það er stórskaðlegt bæði fyrir viðkomandi einstaklinga og samfélagið í heild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×