Innlent

Spá hvassviðri og rigningu í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Snjókoman breytist í rigningu þegar hlýnar með deginum.
Snjókoman breytist í rigningu þegar hlýnar með deginum. Vísir/Ernir
„Við spáum hvassviðri eða stormi á landinu í dag,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni. Úrkomuskil frá djúpri lægð sem heldur sér nálægt Hvarfi, syðsta höfða Grænlands, eru nú byrjuð að ganga yfir Ísland.

„Þetta byrjar með snjókomu en síðan gengur þetta yfir í slyddu og síðan rigningu,“ segir Helga en hvít jörð var á höfuðborgarsvæðinu og víða annars staðar í morgun. Snjómokstur á götum er þegar hafinn.

„Ég á von á að snjórinn fari að mestu í dag. Þetta rignir vonandi vel niður og skilur vonandi ekki eftir sig klaka. Það gæti auðvitað orðið mjög hált þegar byrjar að rigna í dag. Það má vara við því,“ segir Helga.

Hún segir að búast megi við talsvert mikilli rigningu suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum. Þar byrjar þetta með snjókomu og svo fer yfir í rigningu. Það má búast við að verði einhverjir vatnavextir í kvöld. Allir sem eru á ferðinni ættu því að fylgjast vel með. En það ætti að hlána á landinu öllu í dag.“

Á morgun er búist við mun hægari vindi og að það verði úrkomuminna, en á aðfaranótt þriðjudags hvessir aftur úr suðri með rigningu víða um land.

Veðurspáin klukkan 10.Veðurstofan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×