Innlent

Suðaustan stormur í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir þriðjudagsmorgun klukkan 6.
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir þriðjudagsmorgun klukkan 6. veðurstofa íslands
Veðurstofan varar við suðaustan hvassviðri eða stormi seint í kvöld og nótt með talsverðri rigningu sunnanlands.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að því megi búast við slæmu ferðaveðri og hálku á vegum en hviðurnar gætu farið upp í allt að 38 metra á sekúndu á Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum.

Gul viðvörun Veðurstofunnar vegna stormsins nær til alls landsins nema Austfjarða og tekur gildi á miðnætti í kvöld.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Fremur hæg suðlæg átt en 10-15 austast. Skúrir eða slydduél um landið sunnan- og vestanvert en úrkomulítið norðaustantil. Hiti nálægt frostmarki.

Gengur í suðaustan hvassviðri eða storm seint í kvöld og nótt með rigningu, en talsverð rigning sunnanlands. Suðaustan 13-18 síðdegis á morgun en hægari vestantil. Styttir upp um landið norðaustanvert annað kvöld. Hiti 1 til 6 stig.

Á þriðjudag:

Suðaustan hvassviðri eða stormur aðfaranótt þriðjudags, en lægir nokkuð með með deginum, einkum vestantil. Talsverð rigning, en úrkomulítið norðan heiða. Hiti 1 til 7 stig.

Á miðvikudag:

Suðlæg átt 5-13 m/s, skýjað með köflum og dálitlar skúrir eða él, en þurrt að mestu norðanlands. Hiti um og undir frostmarki.

Á fimmtudag:

Vaxandi sunnan- og suðaustanátt, hvassviðri eða stormur um kvöldið með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands, en lengst af þurrt á Norðurlandi. Hlýnar í veðri.

Á föstudag:

Suðaustan hvassviðri eða stormur og talsverð eða mikil ringing á sunnanverðu landinu en úrkomuminna norðanlands. Hiti 2 til 7 stig.

Á laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir ákveðna sunnan- og suðaustanátt. Víða rigning, talsverð á Suðausturlandi, en þurrt norðaustantil. Hiti um og yfir frostmarki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×