Innlent

Allt að því marautt á Íslandi á meðan snjóar í Skandinavíu

Birgir Olgeirsson skrifar
Hiti hefur náð sautján stigum á Skjaldaþingsstöðum það sem af er degi og er spáð áframhaldandi hlýindum út vikuna.
Hiti hefur náð sautján stigum á Skjaldaþingsstöðum það sem af er degi og er spáð áframhaldandi hlýindum út vikuna. Vísir/Eyþór
„Meðan staða veðrakerfanna er eins og hún er þá liggjum við til þess að gera inni í frekar hlýju lofti,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um hlýindin, miðað við árstíma, sem eru yfir landinu.

Hiti hefur náð sautján stigum á Skjaldaþingsstöðum það sem af er degi og er spáð áframhaldandi hlýindum út vikuna.

Meðan tiltölulega milt veður er yfir Íslandi þá er hins vegar mikið um snjó í Skandinavíu, þá sérstaklega í Noregi og Svíþjóð. „Ég held að Norðmennirnir gráti það ekki, þeir vilja örugglega komast á skíðin sín. Við grátum það ekki heldur að hafa snjólaust. Þetta er mismunandi hvað fólk vill,“ segir Óli en fremur algengt að þegar milt er í veðri á Íslandi sé mikið um snjó og kulda í Skandinavíu.

Spurður hvað stýri því segir Óli afar tilviljanakennt hvernig veðrakerfin raðast upp.

„Lægðirnar eru að rúlla beint á okkur og meðan þær fara fyrir vestan land fáum við mikið af hlýju lofti yfir okkur, þannig að að því leytinu til þá liggjum við í þessum hlýja straumi sem er að draga loft langt sunnan úr hafi og hérna norður eftir. Það er hæð vestur af Spáni sem er að stýra lægðum upp í áttina að okkur. Meðan þær fara vestan við land fáum við þetta hlýja loft,“ segir Óli.

Hann býst við að það muni lengja á milli lægða og þá sé ekki langt í kalda loftið og slydduél í kjölfar lægða.

„En svo er ekki að sjá fyrr en næstu viku að ein og ein lægð skríði fyrir austan land og þá styttist í norðaustanáttina, en það er samt ekki fyrirsjáanlegt alveg á næstu dögum,“ segir Óli.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Sunnan 10-18 m/s, hvassast um landið norðvestanvert. Rigning og súld, en úrkomuminna um landið norðaustanvert. Gengur í suðaustan 15-23 í kvöld með talsverðri úrkomu sunnan- og vestanlands. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast norðaustantil. Snýst í minnkandi suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum í fyrramálið, fyrst suðvestantil, en léttir til um landið norðaustanvert. Kólnar í veðri. Sunnan 5-13 annað kvöld, hvassast vestantil.

Veðurhorfur næstu daga

Á miðvikudag:

Austlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og bjart með köflum norðan- og vestanlands. Annars stöku skúrir eða él, en úrkomumeira á Suðausturlandi. Vægt frost, en hiti víða 0 til 5 stig við ströndina.

Á fimmtudag:

Breytileg átt 3-8, skýjað með köflum og stöku él, en vaxandi suðaustanátt um kvöldið og þykknar upp. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Allhvöss eða hvöss austan- og suðaustanátt og rigning eða jafnvel slydda sunnan- og vestanlands, en þurrt norðaustantil. Heldur hlýnandi veður.

Á laugardag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt með slyddu eða snjókomu fyrir norðan, en vestlægari og léttir til sunnan- og vestanlands. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Á sunnudag:

Útlit fyrir sunnanátt með rigningu sunnan- og vestantil og hlýnandi veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×