Innlent

Guðmundur Steingrímsson býður sig ekki fram í haust

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. Vísir/Valli
Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram aftur í þingkosningunum í haust. Hann greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir:

„Eftir góða íhugun og samtöl við mína nánustu í sumarblíðunni hef ég ákveðið að bjóða mig ekki fram í kosningunum í haust. Þetta er búinn að vera viðburðarríkur sprettur og ómetanleg reynsla að hafa gegn þingmennsku á þessum krefjandi árum frá hruni. Ég er ánægður með það sem ég hef komið í verk. Vonandi ná sem flestar víðsýnar, bjartar og frjálslyndar manneskjur kjöri á þing. Hugsjónin lifir. Nú langar mig að fara að gera aðra hluti, beita mér á annan hátt. Takast á við nýjar áskoranir. Það er hollt fyrir heilann að breyta til, segja þeir.“

Guðmundur hefur setið á þingi frá árinu 2009 en hann var varaþingmaður fyrir Samfylkinguna á árunum 2007 og 2008. Árið 2009 kom hann inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn en sagði sig úr flokknum á kjörtímabilinu og var utan flokka. Árið 2013 bauð hann sig svo fram fyrir Bjarta framtíð en hann var formaður flokksins frá 2012 til 2015.

Guðmundur er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×