Innlent

Segir auglýsingar ríkisstjórnarinnar augljósa flokkspólitíska ímyndarherferð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar Vísir
Fullyrðingar forsætisráðherra á þingi í gær um kostnað við auglýsingar ríkisstjórnarinnar eru vafasamar að mati Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Í svari ráðherra við fyrirspurn Katrínar segir að ríkisstjórnin hafi birt tvær auglýsingar á síðustu þremur árum. Þær hafi kostað rúmar 2,5 milljónir króna. Fyrri auglýsingin hafi verið til að hvetja neytendur til að fylgjast með verðlagi og beina viðskiptum sínum til þeirra sem skiluðu lækkunum eða niðurfellingu opinberra gjalda. Hin hafi verið til að „vekja athygli almennings á þeirri þverpólitísku samstöðu sem náðist á Alþingi við samþykkt fjárlaga um að verja bæri tekjum sem rynnu í ríkissjóð vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna, á grundvelli nauðasamninga þeirra, til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og ná þannig fram lækkun á vaxtabyrði ríkissjóðs.“

Katrín segir vafasamt að fullyrða að seinni auglýsingin hafi varðað almannahagsmuni. „Það er mjög villandi að segja að þeir hafi verið að vekja athygli á einhverri þverpólitískri samstöðu um ráðstöfun fjármagns í fjárlagagerðinni,“ segir hún. Þá sé skrítið að ríkisstjórnin hafi talið sig þurfa að auglýsa fyrir skattfé hvernig hún verji fjármunum þegar hún var í erfiðri stöðu. „Mér finnst þetta vafasöm ráðstöfun á fénu og mér finnst þetta mjög villandi framsetning í svarinu.“

„Auglýsingin var augljóslega ímyndarherferð sem þjónaði flokkspólitískum tilgangi,“ segir Katrín Júlíusdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×