Innlent

Vonar að fjármálaráðherra hafi orðið fótaskortur á tungunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýndi bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra á Alþingi í morgun fyrir að setja uppbyggingu nýs Landsspítala í óvissu með yfirlýsingum sínum.

Valgerður Bjarnadóttir þingmaður Samfylkingarinnar gerði yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra varðandi framtíðar staðsetningu Landsspítalans að umtalsefni á Alþingi í morgun.

„Það virðist stundum eins og forsætisráðherrann hæstvirtur átti sig ekki á því að ennþá hafa orð hans nokkra vikt og fólk tekur eitthvað mark á þvi,“ sagði Valgerður.

Það skipti þess vegna þá sem stjórnuðu Landsspítalanum gífurlega miklu máli að áform um uppbyggingu Landsspítalans stæðust. Uppbygging hans gerðist ekki á einu til þremur árum heldur væri hún margra ára verkefni.

„Nú skiptir máli þegar innviðirnir á Landsspítalanum eru eins og raun ber vitni að það sé alveg öruggt að það eigi að halda áfram á þeirri braut sem Alþingi hefur ákveðið,“ sagði Valgerður.

Hún hafi því orðið fyrir vonbrigðum með yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í gær.

„Það yrði haldið áfram vissulega, sagði hann, en hann væri alltaf til í að hlusta á góðar hugmyndir og sagði í millitíðinni höldum við okkar striki. Virðulegi forseti það er ekki hægt að segja neitt í millitíðinni í þessu dæmi,“ sagði þingmaðurinn.

Það verði að vera klárt að stjórnvöld héldu sínu striki varðandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

„Ég vona að fjármálaráðherran hæstvirtur komi og staðfesti það að þetta í millitíðinni var svona slip of the tongue, ef ég má þannig að orði komast, afsakið virðulegur forseti,“ sagði Valgerður að lokum og Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis botnaði enskuslettu hennar með því að segja: „fótaskortur á tungunni“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×