Innlent

Fékk svarið við því af hverju hann er í björgunarsveit: „Megum við að minnsta kosti fá að knúsa ykkur áður en við förum?“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Otti Sigmarsson og félagar í björgunarsveitinni Þorbirni aðstoðu þrjá erlenda ferðamenn í neyð sem voru gríðarlega þakklátir.
Otti Sigmarsson og félagar í björgunarsveitinni Þorbirni aðstoðu þrjá erlenda ferðamenn í neyð sem voru gríðarlega þakklátir. Otti Sigmarsson
„Ég veit ekki hvernig við getum nokkurn tímann þakkað ykkur, við erum búin að vaska allt upp í björgunarsveitarhúsinu og gera fínt. Megum við að minnsta kosti fá að knúsa ykkur áður en við förum?“

Þetta sögðu þrjár hollenskar konur við björgunarsveitamanninn Otta Sigmarsson og félaga eftir að björgunarsveitin Þorbjörn aðstoðaði þær eftir að þær festu bíl sinn á Suðurstrandaveginum um helgina.

„Þær voru með allt sitt í bílnum, farangur, peninga, bara allt saman. Við ferjuðum þær í björgunarsveitarhúsið en ákvaðum að skjótast eftir bílnum þeirra og losa hann,“ segir Otti í samtali við Vísi

Fékk svarið við afhverju hann standi yfirleitt í því að bjarga ferðamönnum

Otti segir að stundum velti hann því fyrir sér, sérstaklega þegar hann er rennandi blautur og kaldur í björgunarsveitarbílnum í glórulausum byl að aðstoða ferðafólk afhverju hann standi yfirleitt í þessu. Hann fékk svo svarið þegar hann sá þakklætið í augum kvennanna þegar björgunarsveitarmennirnir birtust með bílinn þeirra og allt þeirra hafurtask.

„Þau voru gráti næst af gleði og manni leið eins og maður hefði algjörlega bjargað lífi þeirra. Þessvegna er maður að þessu. Þetta var ekkert svo mikið mál fyrir okkur að ná í bílnum en skipti öllu máli fyrir þær. Þær voru ekki með neitt og hefðu ekkert komist án bílsins.“

Þökkuðu fyrir sig með því að vaska upp

Konurnar þrjár biðu átekta í björgunarsveitahúsnæði Þorbjarnar á meðan þeir sóttu bíl þeirra. Þær sátu ekki þó aðgerðarlausar heldur þrifu allt hátt og lágt, vöskuðu upp og sáu til þess að húsnæðið væri í lagi á meðan út.

„Það var alveg frábært og mjög kærkomið. Það var mjög fínt að þurfa ekki að gera allt hreint eftir langa og erfiða vakt.“

Framundan er önnur vakt en björgunarsveitin Þorbjörn mun standa vaktina í kvöld og hefst vaktin klukkan 18 enda er spáð algjöru fárviðri víðsvegar um landið í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×