Innlent

Hjólhýsi fauk um bílastæði Bílasölu Akraness

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjólhýsið er mikið skemmt og jafnvel ónýtt.
Hjólhýsið er mikið skemmt og jafnvel ónýtt. Mynd/Finnur Andrésson
„Það er ekki mikið að gera akkúrat núna, en þau eru búin að vera nokkur verkefnin í kvöld,“ segir Guðni Haraldsson, formaður svæðisstjórnar á svæði 4, sem stýrt hefur aðgerðum Björgunarfélags Akraness í kvöld. Guðni segir að á milli tuttugu og þrjátíu björgunarfélagsmenn hafi verið að störfum í kvöld.

Fok á lausamunum skemmdi bíla og þar á meðal fauk hjólhýsi við Bílasölu Akraness. Þar eru nokkrir bílar skemmdir eftir hjólhýsið þar sem það fauk á milli bíla.

Þar að auki hefur Björgunarfélagið sinnt útköllum vegna þakkanta, þakplatna og þegar þetta er skrifað voru þeir að störfum við Sementsverksmiðjuna.

Þó rokið hafi verið mikið á Akranesi í kvöld er útlit fyrir verri aðstæður þar í nótt. Veðurstofa Íslands hefur spáð því að nú eftir miðnætti muni vindáttin snúa úr suðaustri í suðurátt. Guðni segir þá átt vera mun óhagstæðari fyrir Skagamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×