Fótbolti

Illarramendi genginn til liðs við Real Sociedad á ný

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Illarramendi í leik með Real Madrid.
Illarramendi í leik með Real Madrid. Vísir/Getty
Spænski miðjumaðurinn Asier Illarramendi gekk í dag til liðs við Real Sociedad á ný eftir tvö ár í herbúðum Real Madrid. Snýr hann því aftur til uppeldisfélagsins eftir misheppnaða dvöl hjá spænska stórveldinu.

Það kom töluvert á óvart þegar Real Madrid greiddi rúmlega 32 milljónir evra fyrir Illarramendi fyrir tveimur árum. Var hann dýrasti spænski leikmaðurinn í sögu félagsins en hann hefur ekki enn leikið leik fyrir hönd þjóðar sinnar.

Lék hann aðeins 25 leiki í byrjunarliði Real Madrid á undanförnum tveimur árum en Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Real Madrid, tjáði honum er hann tók við liðinu að hann myndi ekki fá mörg tækifæri á þessu tímabili.

Illarramendi skrifaði undir sex ára samning hjá Real Socidedad en talið er að félagið hafi greitt 17 milljónir evra fyrir hann, tæplega helmingi minna en Real Madrid greiddi fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×