Fótbolti

Finnar unnu Tyrki í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnar fagna sigri.
Finnar fagna sigri. Mynd/AFP
Finnska körfuboltalandsliðið byrjaði vel á Evrópumótið í körfubolta í Slóveníu í dag en Finnar unnu þá sex stiga sigur á Tyrklandi. Georgíumenn og Lettar unnu einnig fyrsta leik sinn á mótinu og þá var mikil spenna í leik Breta og Ísraelsmenn þar sem Bretar komu til baka í blálokin úr mjög erfiðari stöðu og tókst að tryggja sér dramatískan sigur.

Frábær annar leikhluti lagði grunninn að 61-55 sigri Finna á Tyrkjum en hann vann finnska liðið 22-11 og komst þrettán stigum yfir fyrir hálfleik, 32-19. Tyrkir náðu að minnka muninn í seinni hálfleik en Finnar héldu út og lönduðu sigri.

Petteri Koponen og Sasu Salin voru stigahæstir í liði Finna með tólf stig hvor en Koponen var einnig með 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Ender Arslan skoraði 12 stig fyrir Tyrki.

Bretland vann 75-71 sigur á Ísrael í framlengdum leik en Kyle Johnson var atkvæðamestur í breska liðinu með 22 stig. Ísraelsmenn voru með Íslandi í riðli í undankeppninni og voru 9 stigum yfir, 66-57, þegar þrjár mínútur voru eftir. Bretar unnu lokamínúturnar 9-0 og framlenginguna síðan 9-5.

Lettland vann 11 stiga sigur á Bosníu, 86-75, þar sem Rolands Freimanis skoraði 24 stig fyrir lettneska liðið.

Viktor Sanikidze skoraði 23 stig þegar Georgía vann sannfærandi 84-67 sigur á Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×