Innlent

Víkingainnrásin sögð á enda

Guðjón Helgason skrifar

Breskt blað gerir því skóna í dag að svokallaðri Víkingainnrás á breskan fjármálamarkað sé lokið. Þrjár helstu leiðir íslenskra fyrirtækja til að fjármagna kaup á breskum félögum séu nú lokaðar eða illfærar vegna niðursveiflu á alþjóðamörkuðum síðustu daga.

Breska blaðið Sunday Telegraph gerir íslensku útrásina svokölluðu að umtalsefni í dag og segir henni ógnað. Erfiðara sé að nálgast ódýrt lánsfé vegna niðursveiflunnar á alþjóðamarkaði fyrir helgi.

Blaðið nefnir þrjár leiðir sem íslensk fyrirtæki hafi farið í fjármögnun. Í fyrsta lagi hafi þau keypt hlutabréf og selt á réttum tíma til að afla fjár til annarra og stærri kaupa. Þau hafi einnig sótt hagstætt lánsfé til viðskiptabanka á borð við Kaupþing, Glitni og Skotlandsbanka. Í þriðja lagi hafi þau endurfjármagnað eignir - meðal annars keypt fyrirtæki gagngert í þeim tilgangi að nota umframfé við endurfjármögnun til að kaupa annað.

Baugur er tekinn sem sérstakt dæmi í greininni. Félagið hafi farið áðurnefndar þrjár leiðir sem nú virðist lokaðar eða illfærar - lánsfé dýrt og fjárfestar haldi að sér höndum.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir að fyrirtækið hafi átt von á niðursveiflu í nokkurn tíma. Því hafi Baugur ekki keypt mikið það sem af sér árinu - kaupverð hafi verið of hátt - meðal annars vegna þess hver yfirtökur hafi margar verið yfirskuldsettar. Baugur hafi ekki tekið þátt í því.

Gunnar segir að fram hafi komið að félagið eigi jafnvirði um 80 milljarða í varasjóðum. Fyrirtækið sé í þeirri góðu stöðu að vera vel fjármagnað og með svigrúm til að bæta við. Nýjir fjárfestingarmöguleikar hafi verið skoðaðir og hreyfingar á markaði hafi ekki áhrif á það. Einnig hlúi félagið að þeim fyrirtækjum sem það eigi nú og fjárfesti áfram í þeim. Því sé útrás Baugs í Bretlandi hvergi nærri lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×