Innlent

Vilja hluta af Kolaportinu undir bílastæði

Óli Tynes skrifar
Það er alltaf líf og fjör í Kolaportinu.
Það er alltaf líf og fjör í Kolaportinu.

Minnihlutinn í borgarstjórn reynir nú að koma í veg fyrir að tollstjóri fái 5000 fermetra bílastæði með viðbyggingu ofan jarðar við Tollhúsið. Til þess að koma stæðinu fyrir þyrfti að ganga á húsnæði Kolaportsins. Aðstandendur þess hafa miklar áhyggjur af málinu.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltgrúi Samfylkingarinnar sagði í samtali við vísi.is að hann hefði stoppað slík áform þegar hann var formaður skipulagsráðs á sínum tíma. Þá átti reyndar að ryðja Kolaportinu öllu í burt. Honum fannst það ekki koma til greina að gera slíka mannlífsiðu brottræka. Nú væri þessi draugur vaknaður aftur, í breyttri mynd þó.

Dagur benti á að á næstu lóð við Tollhúsið, það er að segja þar sem tónlistarhús rís verði niðurgrafið bílahús fyrir 1600 bíla. Sér þætti nánast hlægilegt að ætla að byggja þarna bílastæði ofan jarðar, á dýrasta fermetraplássi landsins.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í samtali við visir.is að aðstandendur Kolaportsins hefðu komið á sinn fund og hann skildi vel áhyggjur þeirra. Sér væri mjög í mun að Kolaportið geti starfað áfram í miðborginni.

Hinsvegar eigi ríkið Tollhúsið og vafasamt að borgin geti bannað breytingar á húsnæðinu. Júlíus Vífill  sagði að ef af framkvæmdum verði sé ljóst að Kolaportinu yrði lokað í einhverja mánuði. Hann sagðist munu eiga fund með tollstjóra á næstunni, til þess að setja sig betur inn  í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×