Innlent

Læknanemar dreifa 15.000 smokkum

MYND/365

Ástráður, forvarnarstarf læknanema, hefur í samstarfi við Halldór Jónsson, innflytjanda Durex á Íslandi, og fleiri góða aðila ákveðið að hrinda af stað smokkaátaki um Verslunarmannahelgina, á Gay pride hátíðinni og á Menningarnótt.

Meðlimir í Ástráði ætla að vera sem sýnilegastir á þessum viðburðum og dreifa smokkum sem víðast. Um Verslunarmannahelgina sem framundan er mun smokkum verða dreift til fólks á leið á skemmtanir víðsvegar um landið. Áætlað er að dreifa samtals 15.000 smokkum. 7.000 um Verslunarmannahelgina, 5.000 á Gay pride og 3.000 á Menningarnótt.

Læknanemarnir vilja með átakinu láta gott af sér leiða og vekja fólk til umhugsunar um kynheilbrigði og nauðsyn þess að setja öryggið á oddinn meðal annars til að draga úr kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum. Læknanemarnir hyggjast gera það að baráttumáli sínu á næsta ári að stjórnvöld lækki eða felli niður verð á getnaðarvörnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×