Innlent

Eyjagöng aldrei í einkaframkvæmd

Vestmannaeyjagöng verða aldrei fjármögnuð með einkafé, slík er óvissan og stærðargráðan á verkefninu, segir Gísli Gíslason, stjórnarformaður Spalar. Hann segir eyjagöng tæplega raunhæf í náinni framtíð.

Nú í vikunni kom enn ein skýrslan um kosti, galla og kostnað jarðganga til Vestmannaeyja. Hún verður gerð opinber eftir ríkisstjórnarfund á morgun en fram hefur komið að göngin gætu kostað upp undir 80 milljarða. Til samanburðar er talið að Sundabraut í jarðgöngum myndi kosta 16 milljarða. Stjórnarformaður Spalar, sem á og rekur Hvalfjarðargöng, segir mikilvægt að menn eigi sér drauma og baráttumál.

Hann segir augljóst að bæta þurfi samgöngur milli lands og Eyja en menn eigi að skoða aðra kosti. Þá segir hann tæknilega óvissu og stærðargráðuna á Vestmannaeyjagöngum slíka að engin leið yrði að fjármagna þau í einkaframkvæmd.

Gísli bendir á að Vestmannaeyjar væru endastöð - og göng þangað yrðu ekki gegnumstreymisgöng líkt og Hvalfjarðargöngin sem þjóna Vesturlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Göng til Eyja yrðu þrisvar sinnum lengri og mun flóknari en Hvalfjarðargöngin. Vestmannaeyjarbær sé lítill og umferðin yrði varla mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×