Innlent

Metafkoma hjá Kaupþingi

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Metafkoma var á nær öllum sviðum hjá Kaupþingi á fyrri hluta ársins. Hagnaður bankans eftir skatta var tæpir fjörutíu og sjö milljarðar króna. Eignir hafa vaxið og eru nú meiri en verðmæti allra fasteigna á Íslandi.

Forstjóri Kaupþings kynnti í morgun á alþjóðamálinu ensku afkomu bankans á fyrri hluta þessa árs. Það er skemmst frá því að segja að vel gekk. Hagnaður eftir skatta er 46,8 milljarðar króna og hagnaður hluthafa jókst um tæp 44% miðað við sama tímabil í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi jukust hreinar vaxtatekjur um tæp fjörutíu prósent og þóknanatekjur um rúm 65 prósent. Megnið af vaxta- og þóknanatekjum koma frá Íslandi. Fjöldi starfsmanna nálgast óðum þriðja þúsundið og eru þeir nú 2970 í tíu löndum.

Þá voru heildareignir bankans orðnar í lok júní rúmir 4570 milljarðar króna og hafa aukist um ríflega fimm hundruð milljarða frá áramótum. Til samanburðar má geta þess að verðmæti allra fasteigna á Íslandi, var um síðustu áramót 3550 milljarðar - rösklega þúsund milljörðum minna virði en eignir Kaupþings banka.

Um sjötíu prósent af hagnaðinum síðustu sex mánuði eru af fyrirtækjabanka- og verðbréfastarfsemi.

 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×