Innlent

Skýfall í höfuðborginni í gærkvöldi

Gissur Sigurðsson skrifar

Úrhellis rigningu eða skýfall gerði á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og var slökkviliðið kallað í þrjú hús til að dæla út vatni, sem kom upp úr niðurföllum í þeim.

Víða myndaðist vatnselgur á götum og við ýmsa svelgi við útidyr og á bílaplönum. Úrhellið varð í logni og hlýju og var líkast hitabeltisúrkomu. Vatnsmælir við Korpu í Reykjavík mældi fimm millimetra úrkomu á innan við hálftíma, sem er mjög mikil úrkoma á íslenskan mællikvarða.

Til samanburðar ringdi ekki nema einum millimetra meira, eða sex millimetrum í fimm og hálfa viku í þurrkatíðinni suðvestanlands núna í sumar. Svona fyrirbrigði verður þegar hlýtt og rakt loft streymir hratt upp og myndar skýjaklakka, sem opna svo gáttir sínar til jarðar.

Þetta eru svipaðar aðstæður og þrumur og eldingar verða í. Þeirra varð hins vegar ekki vart í tengslum við skýfallið sjálft, en nokkrar eldingar urðu síðdegis á suðvesturlandi. Þá gerði líka skýfall á Akureyri um fimm leytið í morgun, en mæling liggur ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×