Innlent

Saksóknari efnahagsbrota kærir frávísun til Hæstaréttar

Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra.
Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra. MYND/Fréttablaðið

Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra mun kæra úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra í morgun til Hæstaréttar. Héraðsdómur vísaði máli gegn fólki á Akureyri sem nýtti sér kerfisvillu í netbanka Glitnis frá, á þeim grundvelli að kæruvald saksóknara efnahagsbrota styddist ekki við lög.

Í dómnum segir að saksóknara efnahagsbrota verði ekki falin sjálfstæð meðferð ákæruvalds með reglugerð að óbreyttum lögum. Ný reglugerð tók gildi um áramót þar sem efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra var lögð niður en embætti saksóknara efnahagsbrota sett á fót.

Að sögn Helga Magnúsar var reglugerðinni meðal annars ætlað að skapa meira sjálfstæði saksóknara innan gildandi laga. Ef Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms þarf að endurskoða lög um meðferð opinberra mála sem reglugerðin byggir á og þá sérstaklega kaflann um ákæruvald.

Helgi Magnús segir að ekki verið gefnar út ákærur fyrr en niðurstaða Hæstaréttar fæst. Ef hann staðfestir úrskurð Héraðsdóms munu ákærur verða gefnar út með tilvísun í ríkislögreglustjóra. Aðspurður um þýðingu í öðrum málum þar sem saksóknari efnahagsbrota hefur gefið út ákæru segir hann að niðurstaða Hæstaréttar muni leiða hana í ljós. Helgi Magnús segir frávísunina óheppilega og valda óhagræði auk þess sem hún tefji mál. Hann segir niðurstöðu líklega ekki að vænta fyrr en í lok ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×