Innlent

Slysum á Miklubraut fjölgaði um 45%

Aron Örn Þórarinsson skrifar

Aftanákeyrslum í Reykjavík fjölgaði um 25% árið 2006. Flest tjón verða á Miklubrautinni og fjöldi slasaðra þar aukist um 45%. Og enn einu sinni eru gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þau tjónamestu. Þetta kemur fram í samantekt Sjóvá Forvarnarhússins fyrir árið 2006.

Í Reykjavík var tilkynnt um 9.740 tjón til tryggingarfélaganna árið 2006. Það er 35% aukning frá árinu áður og meiri en á landinu í heild. Í þessum umferðaróhöppum slösuðust 1.234 einstaklingar, sem er einnig 35% aukning frá árinu áður. Flestir slösuðust í aftanákeyrslum eða rúm rúm 41% þeirra sem slösuðust. Í þessum óhöppum skemmdust tæplega 20.000 bílar. Ef sá fjöldi yrði settur í eina bílalest, þá yrði hún um 89km löng, eða frá Reykjavík til Reykholts í Borgarfirði.

Tjónum á Miklubrautinni fjölgaði um 11% frá árinu áður og þar slösuðust 139 einstaklingar. Áhyggjuefni þykir að fjölgun slasaðra er um 45% á þessari einu götu. Kostnaður tryggingarfélaganna vegna Miklubrautar voru um 357 milljónir. Önnur tjónamesta gatan er Hringbraut og sú þriðja er Kringlumýrarbraut.

Í samantektinni kemur einnig fram að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru efst á lista yfir tjónamestu gatnamótin, en næst á eftir koma gatnamót Hringbrautar og Njarðargötu.

Flest tjón og slys gerast eftir hádegi, og er mesta hættan á milli klukkan 16 og 17. Samt sem áður er einnig mikið um tjón á morgnanna, en þá eru slys á fólki minni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×