Innlent

Mikill verðmunur á bílatryggingum

Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins gerði nýlega verðkönnun hjá sex tryggingarfélögum. ASÍ sendi mann út með Volkswagen Golf sem lét öll félögin sex gera tilboð í lögboðnar ökutækjatryggingar og framrúðutryggingu fyrir fjölskyldubílinn. Talsverður munur reyndist á bæði iðgjaldi og skilmálum félaganna.

Mestur var munurinn á tryggingafélaginu Elísabetu sem var með tilboð frá 51.000 krónum og Sjóvá-Almennum sem gerði tilboð upp á tæplega 80.000 krónur. Munar þar 29.000 krónum eða 56% á ársgrundvelli.

Hjá Elísabetu, Sjóvá, Sjóvá-Strax og Tryggingarmiðstöðinni er einnig iðgjaldsauki sem greiða þarf ef félagið greiðir út bætur úr ábyrgðartryggingu eða slysatrygginu, sem eru 50.000 krónur eða hærri. Iðgjaldsaukinn er 15.000 krónur hjá Elísabetu og Tryggingamiðstöðinni og 18.000 hjá Sjóvá- Almennum og Sjóvá-Strax. En þessar upphæðir leggjast ofan á fyrri tryggingu valdi bifreiðareigandi tjóni upp á 50.000 krónur eða meira. Hjá Vátryggingafélagi Íslands og Verði-Íslandstryggingu er fyrirkomulagið annað, en þar er bónuskerfi og lækkar bónusinn við næstu endurnýjun og iðgjöldin hækka ef viðskiptavinur veldur tjóni sem félagið greiðir bætur fyrir.

Skilmálar um framrúðutryggingu eru ekki eins milli fyrirtækja og er VÍS eina félagið þar sem tryggingin nær yfir allar rúður bílsins, en ekki bara framrúðuna. Hjá öllum félögum er sjálfsábyrgð ef skipta þarf um rúðu en mismunandi mikil. Sjálfsábyrgðin er 15% af verðmæti nýrrar rúðu hjá Sjóvá-Almennum, Sjóvá-Strax og Verði, en 10% hjá VÍS, Tryggingamiðstöðinni og Elísabetu. Hjá Tryggingamiðstöðinni er lágmarks sjálfsábyrgð 2.200 og hámark 22.000 og hjá Elísabetu er lágmarks sjálfsábyrgð 1.990 krónur og að hámarki 19.900.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×