Innlent

Vilja stöðva agaleysi í framúrkeyrslum fjárheimilda

Sitjandi formaður fjárlaganefndar Alþingis segir að ræða verði við fjármálaráðuneytið og forstöðumenn helstu stofnana til að stöðva agaleysi í framúrkeyrslum fjárheimilda. Sem dæmi fóru Háskólinn á Akureyri og Landhelgisgæslan langt fram úr heimildum eða samtals um nærri hálfan milljarð króna.

Ríkisendurskoðandi sat fund fjárlaganefndar Alþingis í dag en hann er mjög ósáttur við framkvæmd fjárlaga árið 2005 eins og mörg ár þar á undan. Í lok árs 2005 var búið að nota átta milljarða umfram fjárheimildir á meðan 26 milljarðar króna fjárheimildir voru ónýttar hjá öðrum ráðuneytum og stofnunum. Þannig að fjárlögin voru langt frá því að standast.

Háskólinn á Akureyri fór 320 milljónir króna fram úr fjárheimildum á síðasta ári þrátt fyrir 110 milljón króna auka fjárveitingu. Þá var Landhelgisgæslan rekin með 260 milljóna króna halla á síðasta ári en þar sem gæslan átti 80 milljónir ónýttar í byrjun árs og var því um 180 milljónir króna í mínus. Á sama tíma átti fjármálaráðuneytið ónotaðar 134 milljónir króna og Alþjóðastofnanir áttu einn komma fjóra milljarða króna ónýtta. Sitjandi formaður fjárlaganefndar sagði málið alvarlegt því fjárlög séu lög sem verði að framfylgja og ætlar hann, helst innan viku, að fá fund með forsvarsmönnum fjármálaráðuneytisins og helstu stofnana.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×