Innlent

11 torfærustólar teknir í notkun

Íþróttasamband fatlaðra tekur í notkun 11 torfæruhjólastóla á morgun, en þeir hafa staðið óhreyfðir í átta mánuði vegna deilna sambandsins við tollayfirvöld hér á landi. Stólarnir komu til landsins í janúar. ÍF sótti um niðurfellingu aðflutningsgjalda en var hafnað. Málið var kært og var niðurfelling gjalda staðfest nú í júlí.

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri fræðslu- og útbreiðslusviðs ÍF, segir þetta ekki eiga að vera svona erfitt. Þingmenn og aðrir sem völd hafa þurfi að sameinast um að greiða fyrir ýmsum málefnum fatlaðra. Stólar sem þessir séu skilgreindir sem aukatæki þrátt fyrir að mörgum finnist það nauðsynlegt að fatlaðir komist út í náttúruna.

Torfærustólar eru ekki ætlaðir til keppni í moldarflagi eins og nafnið bendir til heldur til notkunar á þeim stöðum sem venjulegir hjólastólar komast ekki. Stólarnir komast yfir sand og möl og gera fötluðum þannig kleift að fara ótroðnar slóðir. Einn torfærustóll hefur verið hér á landi síðasta árið en nú bætast ellefu við. Þessi fjöldi var keyptur fyrir ágóða af söfnunarátaki þáttarins Ísland í bítið og Bylgjunnar í júní í fyrra. Anna Karólína segir þetta dæmi um hversu mikið sé hægt að gera þegar fjölmiðlar vilji aðstoða. Samtökin hafi staðið fyrir kaupum á ýmsum tækjum í gegnum tíðina og það hafi kostað baráttu að flytja eitt tæki inn á ári og nú fái þau ellefu stóla á einu bretti. Þetta sé gríðarlega mikilvægt og samtökin séu afar þakklát.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×