Innlent

Leitað út fyrir landssteinana að eldislaxi

Skortur á laxi hér landi hefur leitt til þess að menn hafa gripið til þess ráðs að flytja inn eldislax frá Noregi. Líklegt er þó að það rætist úr ástandinu á næstu vikum.

Verð á eldislaxi á erlendum mörkuðum reyndist mjög gott frá ársbyrjun 2005 til síðasta vors. Það þýddi að stærstu framleiðendurnir hér á landi, Samherji og Síldarvinnslan annars vegar og HB Grandi hins vegar, seldu nánast allt sitt til útlanda.

Eftirspurnin eftir laxi hefur svo aukist hér á landi á árinu og það hefur leitt til þess að helsti seljandi á innanlandsmarkað, Rifós í Kelduhverfi, hefur þurft að skammta kaupendum sínum lax síðastliðnar vikur þar sem allur lax er að verða búinn.

Því hafa menn eins og Rúnar Gíslason, sem rekur veisluþjónustu og sér um fiskborð Hagkaupa, orðið að verða sér úti um lax annnars staðar. Rúnar segist þurfa um tonn af laxi á viku en það hafi hann ekki getað fengið hér á landi undanfarnar vikur svo hann hafi þurft að kaupa hann frá Noregi með auknum tilkostnaði.

 

Rúnar telur að innkaupsverðið á laxi hafi hækkkað um fimmtíu prósent hjá sér og býst við að þurfa að flytja laxinn áfram inn.

Hvorki HB Grandi né Samherji hafa slátrað laxi undanfarna mánuði en að sögn Birgis Óskarssonar, sölu- og markaðsstjóra Samherja, sem er stærsti framleiðandi eldislax hér á landi, er stefnt að því að slátra laxi á næstu vikum bæði hér á landi og í Færeyjum. Eitthvað af því fer á innanlandsmarkað og því ætti landann ekki að skorta lax þegar líður fram á haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×