Innlent

Heildarvirði krónubréfaútgáfu orðið 240 milljarðar

MYND/GVA

Heildarvirði erlendra krónubréfaútgáfu er orðið um 240 milljarðar króna frá því hún hófst fyrir tæpu ári. Þingmaður Samfylkingarinnar varar við óvissunni sem þessu fylgir. Um 60 milljarðar króna eru á gjalddaga frá ágústmánuði til næstu áramóta.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram fyrirspurn á Alþingi í vor um útgefin skuldabréf í íslenskum krónum, eða svokölluð krónubréf, frá því í í ágúst í fyrra þegar útgáfan hófst til 10. apríl á þessu ári. Í svari þáverandi forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, kom meðal annars fram að heildarnafnverð bréfanna væri 226 komma sex milljarðar króna og útgefendurnir væru fyrst og fremst evrópskar fjármálastofnanir.

Þýski landbúnaðarsjóðurinn er stórtækastur í þessum efnum en með krónubréfaútgáfu hans í gær, upp á 9 milljarða króna, er heildarnefnverð bréfa hans orðið rúmlega 60 milljarðar króna. Næst stærsti útgefandinn er Fjárfestingabanki Evrópu með bréf upp á röska fjörutíu milljarða króna, en þar á eftir kemur Rabo-bank í Hollandi, austurríska ríkið og Deutsche bank. Heildarupphæðin nemur nú um 240 milljörðum króna. Kristján telur þetta varhugavert því ekkert sé vitað á þessari stundu hvort þetta sé til góðs eða ills.

Og Kristján bendir á að háar upphæðir eru á gjalddaga á allra næstu mánuðum. Um 60 milljarða króna er nefnilega um að ræða frá ágústmánuði til næstu áramóta.

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×