Innlent

68 prósent vilja aðra stjórn

Um 68 prósent svarenda í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins vilja annað stjórnarsamstarf en núverandi stjórnarflokka eftir næstu kosningar. Tæpur þriðjungur aðspurðra vill Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk áfram í ríkisstjórn, en það er um 19 prósentustigum minna en samanlagt fylgi þessara tveggja flokka samkvæmt könnun blaðsins sem birt var í gær. Þá sögðust 10,7 prósent myndu kjósa Framsóknarflokkinn ef boðað yrði til kosninga nú, en 39.8 prósent sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Mun fleiri karlar en konur vilja áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarflokkanna eftir næstu kosningar. 37,6 prósent karla sögðust helst vilja slíkt ríkisstjórnarsamstarf, en 25,3 prósent kvenna. Þá líst íbúum á landsbyggðinni betur á áframhaldandi samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en íbúum höfuðborgarsvæðisins. 36,0 prósent íbúa á landsbyggðinni vilja slíkt meirihlutasamstarf, en 30,1 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Svör dreifðust aðallega á sex möguleika: meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks; Frjálslynda flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna; Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar; Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna; Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna og samstarf Samfylkingar og Vinstri grænna. Þá voru um tíu prósent sem vildu aðra möguleika í ríkisstjórnarsamstarfi. Meðal þeirra voru nokkrir sem vildu meirihlutastjórn eins flokks. Af þessum valkostum nefndu flestir áframhaldandi samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka.

Tæplega 15 prósent vilja að núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndi ríkisstjórn eftir næstu kosningar, en samanlagt fylgi þeirra flokka í könnun blaðsins í gær var 48,9 prósent.

Aðeins fleiri konur en karlar vilja ríkisstjórn núverandi stjórnarandstöðuflokka, eða 18,4 prósent kvenna og 11,8 prósent karla.

Um 36 prósent svarenda sögðust vilja vinstri stjórn eftir næstu kosningar, myndaða af bæði Samfylkingu og Vinstri grænum og mögulega Framsóknarflokki eða Frjálslynda flokknum. Þar af vildu tæplega 15 prósent meirihlutasamstarf með Frjálslynda flokknum.

Rúmlega sex prósent vildu samstarf með Framsóknarflokknum, en 15 prósent vildi ríkisstjórn sem í væru einungis þessir tveir flokkar. Mun fleiri konur en karlar sögðust vilja Samfylkingu og Vinstri græn í ríkisstjórn, ýmist þá tvo flokka eða með þriðja flokknum. 27,7 prósent karla sögðust vilja slíka vinstri stjórn eftir kosningar, en 46,1 prósent kvenna.

Þá eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu sem vilja vinstri stjórn eftir næstu kosningar en íbúar á landsbyggðinni. 39,3 prósent íbúa á höfðuðborgarsvæðinu sögðust vilja ríkisstjórn eftir næstu kosningar sem innihéldi bæði Samfylkingu og Vinstri græn. Þar af vildu 15,8 prósent samstarf við Frjálslynda flokkinn. 5,1 prósent vildi samstarf við Framsóknarflokkinn og 18,4 prósent vildu að einungis Samfylking og Vinstri græn mynduðu stjórn.

29,6 prósent íbúa á landsbyggðinni sögðust vilja vinstri stjórn með samstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna. Þar af vildu 12,8 prósent að Frjálslyndi flokkurinn væri jafnframt í stjórn, 8,1 prósent vildi einnig hafa Framsóknarflokkinn í stjórn en 8,7 prósent sögðust vilja tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Tæp 22 prósent svarenda segjast vilja blöndu af hægri og vinstri flokkum í næstu ríkisstjórn. Þar af segjast 12,3 prósent vilja ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og 9,2 prósent vilja samstarf Sjálf­stæðisflokks og Vinstri grænna. Mjög lítill munur er á afstöðu til þessara kosta eftir kyni eða búsetu.

Hringt var í 800 kjósendur laugardaginn 26. ágúst og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var; Eftir næstu kosningar, hvaða stjórnmálaflokkar vilt þú að myndi næstu ríkisstjórn? 61,0 prósent svarenda tók afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×