Innlent

Beitir blekkingum

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, segir að Valgerður Sverrisdóttir hafi beitt blekkingum í fjölmiðlum þegar hún hafi verið spurð um það hví hún hafi ekki greint þingmönnum frá innihaldi skýrslu Gríms Björnssonar jarðeðlisfræðings.

Hún verður því að skýra þingmönnum frá því af hverju hún hafi stungið skýrslunni undir stól og þegar þau rök hafa heyrst, en hingað til hafa það aðeins verið falsrök, þá tel ég rétt að hún sjálf ásamt sínum samstarfsmönnum og Alþingi meti það hvernig henni beri að axla ábyrgð í þessu máli, segir Össur.

Össur segir ummæli Valgerðar í fjölmiðlum um að hún hafi sjálf greint þingmönnum frá skýrslunni vera blekkingar því hið sanna sé að hún hafi neyðst til þess að minnast á hana á Alþingi þremur árum eftir að framkvæmdirnar voru samþykktar á Alþingi. Einnig hafi náttúruverndarsamtök ekki fengi að sjá skýrsluna fyrr en ári eftir að framkvæmdir voru samþykktar en Valgerður hafi látið í veðri vaka að það hafi verið öllu fyrr.

Umhverfismatsskýrslan var ein meginstoðin sem við þingmenn studdumst við þegar við tókum afstöðu til málsins og í þeirri skýrslu segir að tæknimenn telji að berggrunnurinn undir stæðinu sé traustur. En Valgerður vissi þá, ein allra þingmanna, að það var ástæða til að vefengja það. Þetta er því grafalvarlegt mál, segir Össur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×