Innlent

Gleypti hálft kíló af hassi

Par á fertugsaldri með þriggja ára gamalt barn var stöðvað við reglubundið eftirlit tollgæslunnar í Leifsstöð um hádegisbil á fimmtudaginn. Parið var að koma frá Kaupmannahöfn og vöknuðu grunsemdir tollgæslunnar um að maðurinn væri með fíkniefni innvortis.

Maðurinn, sem er frá Suður-Ameríku en hefur verið búsettur hér á landi um nokkurra ára skeið, var sendur í röntgenmyndatöku og reyndist hann þá hafa gleypt um fimm hundruð grömm af hassi. Hann var þá handtekinn í framhaldinu. Hvorki konan, sem er frá Norður-Afríku, né barnið reyndust vera með fíkniefni á sér. Lögregla telur að maðurinn hafi ætlað efnið til sölu og dreifingar. Hann hefur ekki komið við sögu lögreglu áður.

Efnið hafði hann gleypt í smokkum og var það dreift um meltingarveg mannsins og maga.

Um föstudagskvöldið fór maðurinn að kenna sér meins, rof hafði komið á einhverjar umbúðirnar og var hann þá fluttur á gjörgæsludeild Landspítalans með hjartsláttartruflanir.

Eftir aðhlynningu náði maðurinn sér að fullu og efnið skilaði sér með hefðbundnum hætti að sögn lögreglu. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, kannast ekki við að ámóta aðferð hafi verið notuð áður við smygl á hassi. Ég minnist þess ekki að fjölskylda með barn hafi áður reynt að smygla hassi með þessum hætti, sagði Jóhann R. Þetta undirstrikar enn og aftur óskammfeilni þeirra sem eru að smygla fíkniefnum, í þessu tilviki er barn notað sem skálkaskjól til að villa um fyrir okkur.

Söluandvirði efnisins á götunni er um milljón króna.

Manninum var sleppt á laugardaginn og telst málið upplýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×