Innlent

Sjö tímarit til nýrra eigenda

Elín Ragnarsdóttir
Elín Ragnarsdóttir

Íslendingasagnaútgáfan gekk í gær frá kaupum á öllum tímaritum Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf. Kaupverðið er trúnaðarmál og ganga kaupin í gegnum mánaðamótin.

Bak við Íslendingaútgáfuna standa meðal annars Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarformaður Árs og Dags, sem gefur út Blaðið, Elín Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fróða, Marteinn Jónsson, sölustjóri Fróða, og Mikael Torfason, aðalritstjóri Fróða. Stefnt er að því að hluthafar verði fleiri, að sögn Sigurðar.

„Þetta var til sölu,“ sagði Sigurður um ástæðu kaupanna. „Ég hef átt í viðræðum við Þorgeir í Odda frá 2005 um að kaupa þessi tímarit. Svo varð þetta niðurstaðan núna.“

Tímaritaútgáfa Fróða hefur lengi verið ein öflugasta útgáfa landsins og gefur út sjö tímarit, Vikuna, Mannlíf, Nýtt líf, Bleikt & blátt, Séð & heyrt, Hús & híbýli og Gestgjafann.

Aðspurður segir Sigurður nýja eigendur ekki hafa íhugað neinar breytingar á útgáfunni. Eigendaskiptin hafa verið kynnt fyrir starfsfólki og öllum verður boðið að vinna áfram að útgáfu tímaritanna. Starfsemin verður áfram til húsa að Höfðabakka 9.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×