Innlent

Grímur fær leyfi til að tjá sig

Grímur 
Björnsson
Grímur Björnsson

Ákveðið var í gær að aflétta banni við því að Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur og starfsmaður Orkuveitu Reykjavíkur, fengi að tjá sig um málefni Kárahnjúkavirkjunar. Stjórnarformaður Orkuveitunnar, Guðlaugur Þór Þórðarson, og forstjórinn, Guðmundur Þóroddsson, kynntu ákvörðunina á fundi borgarráðs. Eins og greint var frá Fréttablaðinu 18. ágúst var Grími Björnssyni gert að tjá sig ekki um málefni samkeppnisaðila Orkuveitunnar, og þar með virkjun Landsvirkjunar við Kárahnjúka.

Grímur, sem gerði ítarlega grein fyrir efasemdum sínum varðandi framkvæmdasvæðið við Kárahnjúka í viðtali við Fréttablaðið 29. júlí, segist hafa ánægju af því að vinna fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. „Ég hafði aldrei frumkvæði að því að gera grein fyrir mínum sjónarmiðum í fjölmiðlum. Ég sætti mig við niðurstöðuna og lét mína yfirmenn sjá um málið, eðli málsins samkvæmt. Mér líkar vel að vinna fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og samband mitt við mína yfirmenn hefur verið með ágætum.“

Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri hjá Orkuveitunni, segir fyrirtækið ekki skipta sér af því ef Grímur tjáir sig um framkvæmdirnar við Kárahnjúka. „Grími var gert það ljóst að við myndum ekki skipta okkur að því ef hann tjáði sig um þetta tiltekna mál. Reglur okkar eru settar með það að leiðarljósi að gæta hagsmuna Orkuveitunnar, viðskiptavina og almennings með því að tjá okkur ekki um mál sem ekki koma okkur við. Okkur fannst í þessu tilfelli umræðan vera að snúast gegn hagsmunum okkar, og þess vegna var ákveðið að leyfa Grími að tjá sig um þetta mál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×