Innlent

Fleiri sjúklingar fá þjónustu

reykjalundur Þeim sjúklingum sem fá þjónustu á næringarsviði Reykjalundar fjölgar úr 60 í 110.
reykjalundur Þeim sjúklingum sem fá þjónustu á næringarsviði Reykjalundar fjölgar úr 60 í 110.

Samkvæmt þjónustusamningi sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert við næringarsviðið á Reykjalundi er stefnt að því að auka þjónustu við sjúklinga með lífshættulega offitu.Sjúklingum fjölgar þannig úr 60-65 á ári í 110 sjúklinga árið 2007. Þjónustusamningurinn gildir til ársloka 2008.

Í ár er gert ráð fyrir að áttatíu manns fari í meðferð á næringarsviði Reykjalundar vegna offitu og að sami fjöldi fari í magaminnkunaraðgerð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.

Á árunum 2006 og 2007 mun heilbrigðisráðuneytið verja 45 miljónum króna í næringarsvið Reykjalundar sem skiptast þannig að fjárframlagið í ár mun aukast um þrjátíu milljónir, en fimmtán milljónir á næsta ári.

Í samningnum er gert ráð fyrir að um áttatíu sjúklingar fái meðferð í ár en nú bíða 390 manns eftir innlögn á næringarsvið Reykjalundar og teljast þeir allir lífshættulega feitir.

Í þjónustusamningi heilbrigðisráðuneytisins við næringarsvið Reykjalundar er ennfremur gert ráð fyrir eflingu göngudeildar næringarsviðs og að fjárframlag til hennar verði aukið um fimmtán milljónir króna á tímabilinu. Í árslok 2006 er gert ráð fyrir 4500 komum á göngudeildina á ári en í göngudeildarmeðferð er fólgin fræðsla, stuðingur og almenn þjálfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×