Innlent

Segir tekjuójöfnuð vera meiri en áður

Tekjuójöfnuður á Íslandi hefur aukist til mikilla muna undanfarin ár, samkvæmt Þorvaldi Gylfasyni, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Samkvæmt útreikningum hans er ójöfnuður í skiptingu tekna á Íslandi mun meiri en á Norðurlöndunum og með því mesta sem gerist í Evrópu.

Gini-stuðull Íslands hefur hækkað um eitt stig á ári að jafnaði síðan 1995. Árið 2004 var hann 32. Miðað við vöxt stuðulsins á hverju ári má búast við að hann sé hærri nú, en niðurstöður fyrir árið 2005 liggja ekki fyrir. Þorvaldur tekur mið af bæði launa- og fjármagnstekjum í útreikningum sínum.

Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur tekið saman upplýsingar um Gini-stuðla ýmissa þjóða og samkvæmt þeim er Danmörk með jafnasta tekjuskiptingu, eða stuðulinn 25. Hæsti stuðull Evrópulands er hjá Portúgal, eða 38,5.

Almennt eru stuðlarnir lægstir í Evrópulöndunum en hæstir í löndum Suður-Ameríku og Afríku. Namibía fær þann vafasama heiður að vera sú þjóð sem hefur ójafnasta tekjuskiptingu með Gini-stuðulinn 70,7.

Samkvæmt vefriti fjármálaráðuneytisins eru fjármagnstekjur þær tekjur einstaklinga sem vaxið hafa mest á undanförnum árum. Árið 2005 höfðu tæplega 85 þúsund fjölskyldur 120 milljarða í tekjur af eignum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×