Innlent

Fundu bækur við uppgröft

Bókin tekin upp Síðari bókin er hér fjarlægð úr gröfinni eftir 500 ára legu.
Bókin tekin upp Síðari bókin er hér fjarlægð úr gröfinni eftir 500 ára legu. Mynd/Gunnar Gunnarsson

Tvær bækur hafa fundist við uppgröft á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Er þetta í fyrsta skipti sem vitað er til að bækur hafi fundist við fornleifauppgröft hérlendis en bækurnar fundust ásamt beinum tveggja manna.

"Þetta er mjög merkilegur fundur. Við teljum að þarna séu á ferðinni sálmabækur og mögulegt að þetta séu bækur sem Jón Arason lét gera fyrir siðaskipti og voru prentaðar á Hólum," segir Steinunn Kristjánsdóttir, sem stjórnar uppgreftrinum.

Bækurnar, sem fundust í tveimur gröfum, lágu ofan á brjóstkassa beinagrindanna og héldu þær um bækurnar. Forvörður er nú að vinna með bækurnar en þeim verður síðan komið í vörslu Þjóðminjasafnsins þar sem þær verða rannsakaðar frekar.

Þetta er fimmta sumarið sem grafið er í rústum klaustursins sem var starfrækt í Fljótsdal á miðöldum. Um þúsund gripir hafa fundist í uppgreftrinum nú í sumar, en þar á meðal eru kirkjulykill, saumnálar og fingur­bjargir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×