Innlent

Nær þrefaldast á þremur árum

Skattálagning Greiðendum hátekjuskatts fjölgar verulega milli ára.
Skattálagning Greiðendum hátekjuskatts fjölgar verulega milli ára.

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga árið 2006 nemur 12,2 milljörðum króna og hækkar um liðlega 60 prósent frá síðasta ári. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru tæplega 85 þúsund og fjölgar þeim um nálægt 10 prósent milli ára.

Þessi mikla hækkun skýrist bæði af auknum hagnaði af sölu hlutabréfa og auknum arðgreiðslum hjá einstaklingum. Hafa tekjur ríkisins af fjármagnstekjuskatti nær þrefaldast á síðustu þremur árum.

Þá fjölgar greiðendum hátekjuskatts verulega milli ára, eða úr 17 þúsund á síðasta ári í 24 þúsund í ár. Hins vegar dregst álagning hans saman úr 1,4 milljörðum í fyrra í einn milljarð króna í ár. Er það vegna lækkunar skatthlutfallsins úr fjórum prósent í tvö prósent. Er þetta í síðasta skipti sem hátekjuskattur er heimtur inn.

Heildarfjöldi framteljenda er nú rúmlega 241 þúsund manns og fjölgar þeim um 2,9 prósent milli ára. Er það mesta fjölgun sem átt hefur sér stað milli ára og má rekja það til mikils fjölda aðflutts vinnuafls sem greiðir skatta hérlendis.

Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars fyrir árið 2006 nemur 163,5 milljörðum króna og hækkar um nærri 13 prósent frá árinu 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×