Innlent

Samningur upp á 45 milljarða

Magnús Jóhannesson
Magnús Jóhannesson

Iceland America Energy, dótturfélag íslenska orkunýtingarfélagsins Enex hf., gerði á dögunum samning við Pacific Gas & Electric í Kaliforníu um framleiðslu og sölu á 50 megavöttum af raforku.

Samningurinn er metinn á um 45 milljarða íslenskra króna, eða um 600 milljónir dala. Raforkan verður framleidd í orkuveri IAE í Truckhaven í Suður-Kaliforníu en áætlað er að boranir hefjist snemma á næsta ári. Afhending orkunnar úr fyrri áfanga verksins verður 2010.

Magnús Jóhannesson, framkvæmdastjóri Iceland America Energy, segir samninginn opna enn frekari möguleika fyrir félagið. „Þetta er fyrsti samningur félagsins af þessari tegund í Bandaríkjunum og skiptir félagið miklu máli. Þessi samningur opnar okkur möguleika á því takast á við enn frekari verkefni. Það eru miklir möguleikar á nýtingu jarðhita til orkuöflunar á vesturströnd Bandaríkjanna.“

Fyrirtækið sem IAE hefur samið við er stærsta orkuveitan í Kaliforníu en 30 prósent viðskiptavina fyrirtækisins fá raforku frá endurnýtanlegum orkugjöfum, það er vatnsafli og jarðvarma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×