Innlent

Mikil eldhætta skapaðist

Rúmlega tíu þúsund lítrar af bensíni runnu niður í jarðveg eftir að tankbíll með tengivagn valt á þjóðveginum við Stórutjarnir í Ljósavatnsskarði í gærmorgun. Bílstjórinn var fluttur lítillega slasaður á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Vegkantur gaf sig undan tankbílnum, sem var á austurleið, þegar hann mætti vörubíl á vesturleið. Slökkviliðsmenn frá Þingeyjarsveit voru fyrstir á vettvang og unnu að hreinsun á slysstað ásamt starfsmönnum Olíudreifingar.

„Aðgerðir gengu vel og fum­laust fyrir sig. Ákveðið var að hreinsa allt úr bílnum áður en hann var færður og því tók þetta tímann sinn en við vildum fara öruggu leiðina,“ segir Friðrik Steingrímsson slökkviliðsstjóri sem stjórnaði aðgerðum á slysstað. Hann segir mikla eldhættu hafa verið fyrir hendi þar sem hægviðri var og hætta vegna myndunar bensíngufa. „Það þarf aðeins lítinn neista til að sprengja allt í loft upp, þessvegna ákváðum við að setja strax froðu yfir allt svæðið til að hamla því,“ segir Friðrik.

Gunnar Steinn Jónsson, líffræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir ekki útlit fyrir að umhverfisskaði hljótist af slysinu þar sem bensínið mun gufa að mestu leyti upp og séu hagstæð veðurskilyrði hér lykilatriði ásamt heppilegum aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×