Innlent

Svikamylla í gervi leikjarpósts

Tölvuþrjótar hafa gert tilraun til að komast yfir greiðslukortaupplýsingar fólks með því að þykjast fara fram á staðfestingu á skrán­ing­arupplýsingum vegna tölvu­leiks­ins Eve-Online sem spilaður er á netinu. Ívar Kristjánsson, fram­kvæm­da­stjóri CCP, framleiðanda leiks­ins, segir fyrirtækið margoft hafa lent í kreditkortasvindli, en sjaldgæfara sé að reynt sé að plata viðskiptavini þess með þessum hætti. "Við höfum tvisvar lent í svona stærri svikamyllum, en þá höfum við varað okkar viðskiptavini við, en í leiknum höfum við leið til að koma til þeirra skilaboðum," segir hann, en svindlinu er sérstaklega beint að þeim sem spila leikinn. "Þeir hafa farið inn á allar aðdáendasíður leiksins og sogað til sín öll tölvupóstföng sem þar var að finna." Ívar segir tilraunir sem þessar til svika fylgja því að vera með viðskipti á netinu, þó svo algengara sé að vefsvæði á borð við PayPal og eBay verði fyrir árásum, "Enda kannski eftir meiru að slægjast þar, Hins vegar lenda allar síður sem eru með lykilorð og notendanöfn í þessu," segir hann, en teldur tilganginn ekki alltaf ljósan, stundum virðist ekki annað ráða för en skemmdarfíkn. "En í þessu tilviki eru menn kannski að fiska eftir kortaupplýsingum og þá náttúrlega til að svindla." Ívar segir að í þessum stærri svindlmálum sem upp hafi komið tengt nafni Eve-Online hafi verið haft upp á hýsingaraðila svindlaranna og lokað fyrir aðgang að vefjum þeirra. "En þetta fylgir því bara að stunda viðskipti af netinu," segir hann. Svipaðir tölvupóstar þar sem reynt er að plata fólk til að gefa upplýsingar hafa meðal annars verið sendir í nafni Micro­soft, Amazon.com, Yahoo, marg­vís­legra bankastofnana og starfs­mannafélaga risafyrirtækja. Vírusvarnafyrirtæki hafa nýlega varað við því að tölvuþrjótar beiti í auknum mæli meðulum á borð við þessi á meðan hefðbundnari árásum vírusa fækki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×