Innlent

Kvaðir lagðar á símafyrirtæki

Póst- og fjarskiptastofnun ætlar að leggja nýjar kvaðir á bæði Símann og Og Vodafone í tengslum við greiningu markaða í farsímarekstri, en slíka greiningu segist stofnunin eiga að framvæma lögum samkvæmt. Birt hafa verið frumdrög að greiningu farsímamarkaðar hér og hafa fyrirtæki frest fram í miðjan september til að koma að athugasemdum vegna hennar. Stofnunin fjallar annars vegar um heildsölumarkað fyrir aðgang og upphaf símtala í farsímanetum og hins vegar um heildsölugjaldtöku í farsímanetinu sem hringt er í. Nýjar kvaðir verða lagðar á Símann til að "tryggja að fyrirtækið verði við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um aðgang að farsímanetum og -þjónustu." Þá verða lagðar kvaðir bæði á Símann og Og Vodafone til að tryggja sanngjarnt heildsöluverð þegar hringt er í net þeirra og til að draga úr mun á gjaldtöku fyrirtækjanna. "Við vinnum þetta nákvæmlega í samræmi við það sem gert er í Evrópu og annars staðar," segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst og fjarskiptastofnunarinnar, en aðferðafræðin er ákveðin af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×