Innlent

Rafmagnið víkur fyrir ljósinu

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að aflagðar hafi verið fyrirætlanir um frekari uppbyggingu eða endurnýjun á tækjabúnaði vegna internettenginga um raforkukerfið, sem seld hefur verið undir merkjum Fjöltengis Orkuveitunnar. Öll áhersla hefur verið lögð á ljósleiðaravæðingu heimilanna. Og Vodafone hefur tekið yfir þjónustu við notendur Fjöltengis býður notendum þessa dagna að flytja sig yfir í ADSL tengingar um símakerfið, en þeir eru á annað þúsund. Guðmundur segir engan þó neyddan til að skipta. "Þeir sem ánægðir eru með tenginguna um rafmagnið geta haldið henni áfram," sagði hann. "Að minnsta kosti þar til komin er ljósleiðaratenging í húsið." Guðmundur segir Orkuveituna ekki líta á gagnaflutninga um rafdreifikerfið sem lausn til framtíðar, nema kannski fyrir hinar dreifðari byggðir þar sem ekki borgar sig að leggja ljósleiðara. Hann segir að á allra næstu árum verði lokið við að leggja ljósleiðara í öll hús á höfuðborgarsvæðinu, auk Hveragerðis, Borgarness og Akraness. Með ljósleiðaratengingu segir hann fólki bjóðast hingað til óþekktur gagnaflutningshraði sem í sér feli fjölda möguleika, svo sem gagnvirkt háskerpusjónvarp, internet, síma og fleira, allt um sömu tenginguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×