Innlent

Akureyrarbær fær nýtt nafn í afmælisgjöf

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Akureyri á afmæli í dag.
Akureyri á afmæli í dag. Vísir/Vilhelm
Akureyrarbær heitir nú formlega Akureyrarbær, en ekki Akureyrarkaupstaður eins og áður, eftir að nafnabreytingin var staðfest opinberlega í dag. Bærinn fagnar 157 ára afmæli í dag, 29. ágúst.

Líkt og Vísir hefur sagt frá samþykkti bæjarstjórn Akureyrar fyrr á árinu að breyta skyldi heitinu úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ. Ástæðan sem upp var gefin var sú að heitið Akureyrarbær hafi fest sig í sessi í daglegu tali á undanförnum árum og sjaldgæft að hið formlega nafn bæjarins, Akureyrarkaupstaður, heyrðist nefnt.

Samþykktin var gerð með fyrirvara um jákvæða umsögn örnefnanefndar og staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Örnefnanefndin samþykkti breytinguna í lok júni að því er fram kemur í tilkynningu frá Akureyrarbæ. Þar segir að vísað hafi verið til þess í rökstuðningi að aðeins væri um að ræða breytingu á stjórnsýsluheiti sem ætti ekki að hafa áhrif á örnefnið forna Akureyri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnamála hefur samþykkt nafnabreytinguna, og var hún formlega auglýst í B-deild Stjórnartíðinda í morgun, á afmælisdag bæjarins.


Tengdar fréttir

Akureyrarkaupstaður fær nýtt heiti

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að breyta skuli nafni Akureyrarkaupstaðar í Akureyrarbæ. Samþykktin er gerð með fyrirvara um jákvæða umsögn örnefnanefndar og staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×