Innlent

Þjóðvegi 1 lokað milli Seljalandsfoss og Víkur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stór hluti þjóðvegar 1 á Suðurlandi er lokaður fyrir umferð.
Stór hluti þjóðvegar 1 á Suðurlandi er lokaður fyrir umferð. vísir/jóhann
Núna klukkan 14 var þjóðvegi 1 milli Seljalandsfoss og Víkur lokað vegna óveðurs. Fyrr í dag var þjóðveginum frá Skeiðarársandi að Jökulsárlóni lokað, einnig vegna veðurs.

Mikið hvassviðri er nú á Suður-og Suðausturlandi en í morgun var afar hvasst norðvestan til á landinu og á Vestfjörðum.

Nú síðdegis verður svo hvassast undir Eyjafjöllum og í Öræfum og er því brugðið á það ráð að loka veginum þar sem búast má við snörpum vindhviðum, allt að 45 metrum á sekúndu, og er litla breytingu að sjá í veðrinu allt til morguns að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Þá er hætt við sandfoki á Skeiðarársandi.

Vegfarendur eru svo hvattir til að hafa varann á þegar farið er um fjallvegi þar sem víða hefur snjóað eða er spáð snjókomu.

Færð og aðstæður á vegum eru annars þessar:

Það er éljagangur og krapi á Fróðárheiði en hvasst er á Snæfellsnesi og sandfok innan við Ólafsvík.

Á Vestfjörðum er víða hvassviðri og éljagangur, slydda eða snjókoma. Steingrímsfjarðarheiði er lokuð. Ófært er á Hrafseyrarheiði og Dynjandisheiði. Krap er á Hálfdáni og á köflum á norðanverðum fjörðunum, þar jafnvel á láglendi.

Hálkublettir eru á Öxnadalsheiði, og éljagangur.

Hálkublettir eru á Möðrudalsöræfum og víðar á Austurlandi, snjóþekja á Fjarðarheiði og hálka á Oddsskarði.


Tengdar fréttir

Vindhviður náð allt að 50 metrum á sekúndu

Mikið hvassviðri gengur nú yfir landið norðvestanvert og Vestfirði og hafa hviður á Gemlufallsheiði á Vestfjörðum náð allt að 50 metrum á sekúndu að sögn Helgu Ívarsdóttur, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×