Innlent

Siv ætlar í formannsslaginn

Siv Friðleifsdóttir hefur ákveðið að taka slaginn við Jón Sigurðsson um formannsembættið í Framsóknarflokknum.

Aðeins er um vika í flokksþing Framsóknarmanna en frestur fyrir félög flokksins til að velja fulltrúa á þingið rennur út á morgun. Siv taldi rétt að bíða með framboðsyfirlýsingu sýna þar til vali fulltrúanna væri nærri lokið. Bæði Siv og Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eru búsett í suðvesturkjördæmi og því nokkrir persónulegir hagsmunir í húfi fyrir Siv þar sem Jón gæti gert kröfu um hennar sæti í kjördæminu ef hann sigraði í formannsslagnum.

Siv segist hafa velt framboðinu fyrir sér í nokkurn tíma og rætt við marga flokksmenn um það. Hún segir eðlilegt að ákveðin kynslóðaskipti verði í flokknum og að gott sé fyrir flokkinn að fara í gegnum kosningar um forystuembættin.

Bæði Guðni Ágústsson og Jónína Bjartmarz hafa boðið sig fram til varaformanns flokksins. Jónína hefur lýst yfir stuðningi við Jón Sigurðsson og því spurning hvort nokkurs konar kosningabandalög séu að myndast í flokknum. Aðspurð um það vill Siv engu svara heldur segir það ákvörðun hvers og eins flokksmanns hvað hann kjósi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×