Innlent

Árni segir rangt að hann geti ekki boðið sig fram

Árni Johnsen segir rangt að halda því fram að hann geti ekki boðið sig fram í þingkosningum á næsta ári. Afar skiptar skoðanir eru meðal Vestmannaeyinga um hugsanlegt framboð Árna.

Árni sagði í samtali við fréttamann NFS í dag að þeir sem teldu hann ekki geta boðið sig fram þekktu málið greinilega ekki nógu vel. Lagaspekingar hafa efast um kjörgengi Árna.

Stuðningsmenn Árna hafa hafið söfnun undirskrifta til að hvetja Árna til að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurlandskjördæmi í haust ef af því verður.

Skiptar skoðanir eru meðal Eyjamanna um hugsanlegt framboð Árna en átján af tuttugu og fimm viðmælendum NFS í Vestmannaeyjum í dag vildu ekkert tjá sig um hugsanlegt framboð Árna. Þeir sem vildu tjá sig voru þó flestir jákvæðir í garð Árna

Sjálfstæðismenn hafa ekki tekið ákvörðun um prófkjör í kjördæminu en Sigurður Valur Ásbjarnarson, formaður kjördæmaráðs Suðurlandskjördæmis, segir að það verði gert á aðalfundi kjördæmaráðs þann 30. september næstkomandi. Á síðasta aðalfundi kjördæmaráðsins hafi verið meirihluti fyrir því að leggja það fram á fundinum að prófkjör verði haldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×