Innlent

Ísland beiti áhrifum sínum

Íslandsdeild Amnesty International sendi Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra áskorun á föstudaginn vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Í áskoruninni er ríkisstjórn Íslands hvött til að beita áhrifum sínum og þrýsta á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að taka mið af tillögum Amnesty International í ályktun varðandi átök Ísrael og Hizbolla-hreyfingarinnar, sem unnið er að á vettvangi ráðsins.

Meðal tillagna Amnesty International er að vopnahléi verði tafarlaust komið á og mannúðaraðstoð og vernd óbreyttra borgara tryggð. Áhersla er lögð á að stríðandi aðilar fari að mannúðarlögum og að öll vopnasala til þeirra verði stöðvuð nú þegar. Þá er lagt til að fram fari óháð rannsókn á stríðsglæpum og öðrum brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum.

Amnesty International hefur verið með rannsóknarnefndir í Suður-Líbanon og Norður-Ísrael, að sögn Jóhönnu K. Eyjólfsdóttur, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty. „Við höfum fordæmt þessi grófu mannréttindabrot sem eru að eiga sér stað og erum núna að þrýsta á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að grípa í taumana."

Afrit af bréfinu var sent til allra þingmanna auk dóms- og kirkjumálaráðherra og forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×